Kvennaverkfall á Akureyri

Þriðjudaginn 24. október eru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var  sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.

 Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið.

Í ár blása því á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og hreyfinga launafólks til kvennaverkfalls á ný. Við leggjum niður störf til að sýna að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Samstöðufundir, táknrænir viðburðir og gjörningar verða um allt land og við hvetjum konur og kvár til að sýna samstöðu undir slagorðinu Kallarðu þetta jafnrétti?

Á Akureyri verður samstöðufundur á Ráðhústorgi þriðjudaginn 24. október kl. 11:00. Gestum er boðið að mæta kl. 10:30 og gera sitt eigið kröfuspjald eða grípa eitt tilbúið. Á stokk stíga  hljómsveitin Skandall, Kvennkór Akureyrar, Drottningarnar og Villi Vandræðaskáld. Sesselía Ólafs kynnir dagskrána og Ásta Flosadóttir flytur ávarp. 

Eftir hádegi, kl.14:00, verður beint streymt frá samstöðufundi á Arnarhóli á RÚV.

Fyrirtæki eru hvött til þess að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.

Link á viðburðinn á Facebook má finna hér: https://fb.me/e/3UEOTaIic 

Nánari upplýsingar um daginn: www.kvennaverkfall.is 

Fyrir hönd undirbúningshóps Kvennaverkfalls á Akureyri


Athugasemdir

Nýjast