Rekstur Iðnaðarsafns færður yfir til Minjasafns - þjónustusamningur til þriggja ára

„Þó í byrjun hafi verið skynsamlegt að hafa sérrekið og sjálfstætt safn um iðnaðarsöguna, safn sem s…
„Þó í byrjun hafi verið skynsamlegt að hafa sérrekið og sjálfstætt safn um iðnaðarsöguna, safn sem sannarlega hefur lyft grettistaki, þá er ekki augljóst að svo verði um alla framtíð." Mynd MÞÞ

„Það eru skiptar skoðanir um þá leið að færa rekstur Iðnaðarsafnsins til Minjasafnsins og ekki allir sáttir. En verði þessi breyting að veruleika þá er verið að auka stuðning Akureyrarbæjar við varðveislu iðnaðarsögunnar og fá að rekstrinum meginsafn á sviði minjaverndar á svæðinu. Ég tek undir vonir bæjarráðs um að gott samstarf takist milli Hollvina Iðnaðarsafnsins og Minjasafnsins í framhaldinu því í þeirra röðum býr mikil þekking og reynsla,“ segir Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður atvinnu- og menningarmála en hann en hann stýrði vinnunni við mat á fýsileika þess að sameina rekstur Minjasafnsins og Iðnaðarsafnsins og mótun tillagnanna sem lagðar voru fyrir bæjarráð í morgun.

Þar samþykkti bæjarráð að unnið verði að gerð þjónustusamnings við Minjasafnið á Akureyri um rekstur Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin. Helstu markmið og verkefni samningsins verði meðal annars að efla starfsemi Iðnaðarsafnsins, tryggja stöðu þess sem viðurkennt safn hjá Safnaráði og tryggja áframhaldandi verndun og skráningu iðnaðarsögunnar. Einnig verði lögð áhersla á að nota fyrsta árið til að starfsfólk Minjasafnsins kynnist eiginleikum og samsetningu Iðnaðarsafnsins af eigin raun og að fagþekking og reynsla þeirra nýtist strax í þágu Iðnaðarsafnsins, til dæmis í sameiginlegum markaðs- og kynningarmálum, í fræðslu til skólahópa og í umsóknum um styrki til starfseminnar. Verði þessi samningur að veruleika vonast bæjarráð til þess að gott samstarf takist á milli Minjasafnsins og Hollvina Iðnaðarsafnsins þannig að þeirra reynsla nýtist áfram við varðveislu þessarar mikilvægu sögu segir í bókun bæjarráðs.

Stefnt verður að því að þjónustusamningur um rekstur Iðnaðarsafnsins gildi frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2026.

Stöðu Iðnaðarsafnsins sem viðurkennds safns ógnað

Helstu rök fyrir því að hefja samrekstur safnanna eru m.a. þau að staða Iðnaðarsafnsins sem viðurkennds safns sé ógnað, öryggi hvað það varðar skapast taki Minjasafnið við rekstrinum. Fram kemur að Akureyrarbær hafi lagt fram mestan beinan stuðning við rekstur Iðnaðarsafnsins. Frá árinu 2010 hafi sá stuðningur numið um 91 milljón króna miðað við verðlag hvers árs (húsaleiga 64 m.kr., rekstrarkostnaður 5,6 m.kr og bein framlög 21,2 m.kr.).

Einnig að  Akureyrarbær hafi góða reynslu af þjónustusamningum við Minjasafnið um rekstur Nonnahúss og Davíðshúss og það sé ráðgefandi fyrir bæinn hvað varðar minja- og húsavernd. Við það að færa Iðnaðarsafnið undir Minjasafnið breytist starfsemi í að vera starfsemi með einn mann á launaskrá yfir að vera teymisverkefni.

Minjasafnið annast skráningu og varðveislu héraðssögu Eyjafjarðar og iðnaðarsaga Akureyrar er afar veigamikill, en með tilkomu þess á sínum tíma hætti Minjasafnið skráningu iðnaðarsögunnar að mestu. „Þó í byrjun hafi verið skynsamlegt að hafa sérrekið og sjálfstætt safn um iðnaðarsöguna, safn sem sannarlega hefur lyft grettistaki,  þá er ekki augljóst að svo verði um alla framtíð. Frá sjónarhóli Akureyrarbæjar sem leggur mest til starfsemi beggja safna má spyrja: Hvers vegna skyldi skráning og varðveisla þessarar sögu ekki vera á einni hendi?“

Kostir sameiningar vega meira en mögulegir gallar

Fram kemur í tillögunni að kostir sameiningar vegi vafalítið meira en mögulegir gallar, svo sem að hugsanlega verði Hollvinir Iðnaðarsafnsins ekki reiðubúnir að leggja til vinnu og þekkingu við sameiningu, að opnunartími skerðist og rekstrarkostnaður aukist sem og að dýrara verði fyrir Minjasafnið að halda úti safnastarfi í mörgum byggingum.

Næstu skref í málinu eru að gera samkomulag við stofnaðila Iðnaðarsafnsins um að Akureyrarbær annist gerð þjónustusamnings við Minjasafnið um rekstur Iðnaðarsafnsins en með því móti þarf ekki að slíta sjálfeignarstofnuninni eða afhenda hana öðrum. 

 

 


Athugasemdir

Nýjast