Fjögurra ára biðtími eftir félagslegri íbúð

Langur biðtími er eftir tveggja herbergja félagslegri íbúð á Akureyri.
Langur biðtími er eftir tveggja herbergja félagslegri íbúð á Akureyri.

Alls eru 164 á biðlista eftir félagslegri íbúð á Akureyri, þar af eru 92 að bíða eftir tveggja herbergja íbúð og 35 eftir þriggja herbergja íbúð. Samkvæmt upplýsingum Vikudags er bíðtími eftir tveggja herbergja íbúð ekki undir fjórum árum, en um tveggja ára bið er eftir þriggja herbergja íbúð. Biðtími eftir fjögurra herbergja íbúð eru tvö og hálft ár að meðaltali.

Í húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar sem unnin var í kring um síðustu áramót kemur fram að fjölga þurfi félagslegum íbúðum um 86 á næstu fimm árum eins og Vikudagur greindi frá. Í síðasta blaði kom fram að áætlað er að reisa 15 íbúðir á næstu þremur árum. Þetta er töluvert undir áætlaðri þörf á félagslegum íbúðum.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir spurður um málið að margþættar aðgerðir séu í gangi til að mæta aukinni þörf á félagslegum íbúðum. „Auk íbúðanna sem bærinn ætlar að reisa hyggst Brynja hússjóður öryrkjabandalagsins kaupa eða byggja 10 íbúðir á næstu tveimur árum sem nýtast mun þessum hóp. Þá erum við að horfa til samstarfs við Bjarg íbúðafélag um uppbyggingu íbúða með stofnframlögum og þar erum við að horfa til þess að hluti af þeim íbúðum geti verið í fé­lagslega íbúðakerfi bæjarins,“ segir Guðmundur Baldvin.

Auk þess hafi Búfesti lýst yfir áhuga á uppbyggingu íbúðakjarna með hluta íbúða byggða með stofnframlögum. „Öll þessi uppbygging mun leiða til já­kvæðra áhrifa á félagslega íbúðakerfið í heild sinni, bæði með beinum og óbeinum hætti. Við erum auk þessa að skoða ýmislegt fleira í tengslum við húsnæðisáætlunina. Hversu mikið við náum að vinna á áætlaðri þörf með þessum aðgerðum á eftir að koma í ljós en við höldum áfram að vinna að þessum málum og munum uppfæra húsnæðisáætlun okkar árlega til að fylgjast með þróuninni og meta árangurinn,“
segir Guðmundur Baldvin


Athugasemdir

Nýjast