Fjárframlög til Aflsins lækka um 30% milli ára

Húsnæði Aflsins á Akureyri.
Húsnæði Aflsins á Akureyri.

Framlög ríkisins til Aflsins, samtök um heimilis-og kynferðisofbeldi, hafa dregist saman um 30% á milli ára. Aflið fékk 14,5 milljónir í fyrra en fær 10 milljónir fyrir árið 2018. Elín Björg Ragnarsdóttir, formaður Aflsins, segir í samtali við Vikudag að þetta skjóti skökku við.

„Við höfum verið að reyna að auka starfsemina og höfum notið stuðnings frá ríkinu og sveitarfélögum. En nú ber svo við að í allri umræðunni um ##meetoo byltinguna og aukna áherslu á að hjálpa þolendum ofbeldis þá minnkar fjárframlagið,“ segir Elín.

Hún bendir á að Aflið hafi verið að færa starfsemina nær fólki.

„Við höfum m.a. verið að skoða möguleika á því að útvíkka starfsemina. Nýta yfirbygginguna hér en vera með ráðgjafa staðsetta á Austurlandi og jafnvel vestan við okkar. Þau plön eru hins vegar í uppnámi vegna þessa,“ segir Elín. Hún segir samtökin hafa kallað eftir auknu fjármagni frá sjórnvöldum.

„Við höfum fengið þau svör að reynt verði að mæta okkar þörfum á næsta ári og þá verði reynt að gera lengri samning en til eins árs. Það er bráðnauðsynlegt að gera lengri samning því það er mjög erfitt að reka svona starfsemi nánast dag frá degi og sjá aldrei lengra fram í tímann en eitt ár. En við bindum vonir við að fá góðan samning á næsta ári,“ segir Elín.

Aflið eru samtök sem voru stofnuð á Akureyri árið 2002. Starfsemin byggir á forsendum þolenda kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis.


Athugasemdir

Nýjast